Áhyggjur af heilbrigðismálum á Gaza

AP

Sameinuðu þjóðirnar hafa miklar áhyggjur af hnignun heilbrigðisþjónustunnar á Gaza í kjölfar þess að Ísraelsmenn hafa lokað fyrir öll samskipti við landsvæðið sem stjórnað er af Hamas-liðum.

Ísraelar hafa einangrað svæðið og meina þar með hundruðum sjúklinga í mánuði hverjum að yfirgefa svæðið tímabundið til þess að sækja sér læknisþjónustu út fyrir svæðið.

„Við höfum þungar áhyggjur af heilbrigðiskerfinu á Gaza, sérstaklega getu þess til þess að sinna sjúklingum með nauðsynlegum hætti,“ segir Max Gaylard, samhæfingarstjóri mannúðarmála hjá SÞ.

„Þessi vonda staða er ekki eins og Haítí. Þar glímir landið við hörmulegar afleiðingar jarðskjálfta,“ lét hann hafa eftir sér á stærsta spítalanum á Gaza, Al-Shifa spítalanum. „Kringumstæður hér eru mannanna verk og því væri hægt að kippa málum í liðinn væri vilji fyrir hendi.“

Ísrael herti á viðskiptaþvingunum gagnvart Gaza í framhaldi af því að Hamas komst til valda á svæðinu um mitt ár 2007. Alls eru um 1,5 milljón manna lokaðir inni á Gaza og þangað er bannað að flytja nema allra nauðsynlegustu hjálpargögn, auk þess sem ferðafrelsi á svæðinu er mjög svo takmarkað.

Fulltrúar Ísraelshers hafa ekki viljað svara ásökunum SÞ, en benda á að herinn hafi ávallt leyft flutning hjálpargagna inn á svæðið.

Að mati Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar  (WHO) hafa viðskiptaþvinganir Ísraelsmanna leitt til vöntunar á ákveðnum lyfjum, afhendingu lífsnauðsynlegs búnaðar og aukahluta hefur seinkað eða alfarið verið komið í veg fyrir afhendingu auk þess sem læknum og öðrum heilbrigðisstarfsfólki hefur verið gert lífsins ómögulegt að sækja sér viðbótarþjálfunar.

„Heilbrigðiskerfið á Gaza er þokkalegt, en um er að ræða tiltölulega þróað kerfi. Það líkist ekki aðbúnaðinum sem við sjáum í þriðja heiminum,“ segir Tony Laurance, sendierindreki WHO á landsvæðum Palestínumanna.

„En það er ekki hægt að reka nútímaheilbrigðiskerfi í einangrun frá alþjóðasamfélaginu.“

Skortur á sérhæfðum meðferðum gerir það að verkum að hundruðir Palestínumanna leitast við að reyna að komast til Ísraels í hverjum mánuði til þess að sækja sér læknisaðstoðar. Mörgum er hins vegar neitað um ferðaleyfi eða fá aldrei svar við beiðnum sínum.
 
Í desember sl. bárust 1.103 umsóknir um leyfi til að sækja sér læknismeðferðar utan Gaza og var 21% þeirra hafnað um ferðaleyfi. Samkvæmt upplýsingum WHO létu alls 27 sjúklingar lífið meðan þeir biðu eftir leyfi frá ísraelskum stjórnvöldum á árinu 2009.
 
„Ef þetta ætti sér stað í öðrum Evrópulöndum eða Ísrael, ef einstaklingur sem þyrftu bráðnauðsynlega á læknismeðferð að halda væri gert ókleift að fá slíka meðferð og hindrunin fælist í skriffinnsku þá þætti það hneyksli,“ segir Laurance og bætir við: „Hér lenda  300-400 manns í þessum í hverjum einasta mánuði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert