Obama setur vinnumarkaðinn í forgang

Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði í ávarpi sínu til bandarísku þjóðarinnar í gær að helsta forgangsefnið nú væri að skapa störf. Obama játað því að Bandaríkjamenn væru „í sárum" og að kosningaloforð hans um breytingar hefðu ekki verið uppfyllt nógu hratt. Obama ávarpaði þjóðina í ræðu sem forseti heldur árlega í byrjun árs þar sem hann fer yfir stöðu lands og þjóðar.

Þetta var í fyrsta skipti sem Obama heldur þessa ræðu og hóf hann hana með því að segja að Bandaríkin yrðu að „svara kalli sögunnar.“Hann sagðist hafa tekið við embætti og tveimur stríðum um leið, efnahag sem skekinn hefði verið af alvarlegri kreppu, fjármálakerfi á barmi hruns og við ríkisstjórn sem væri skuldum vafin.

Hann sagði m.a. að hann myndi halda áfram tilraunum sínum til að bæta heilbrigðistryggingakerfið og varði auk þess stefnu sína við björgun bankanna, sem hann sagði hafa bjargað mörgum störfum.

„Eyðileggingin er enn til staðar," sagði hann. „Einn af hverjum tíu Bandaríkjamönnum fær ekki vinnu. Mörg fyrirtæki hafa misst fótanna. Heimilin hafa hrunið í verði. Litlir bæir og sveitarfélög hafa orðið sérstaklega illa úti. Þeir sem þegar þekktu fátækt á eigin skinni búa nú við enn harðari kjör en áður. Ég veit af þessum vandamálum sem hrjá okkur. Þau eru ekki ný af nálinni. Þessi vandamál eru ástæða þess að ég bauð mig fram sem forseta."

Hann sagði jafnframt að vinnumarkaðurinn yrði algjört forgangsatriði á árinu 2010 og að hann krefðist þess að nýtt lagafrumvarp um vinnumarkaðinn yrði samþykkt í öldungadeildinni.

Þá tilkynnti Obama að hann myndi láta verða af því á þessu ári að afnema umdeild lög sem banna samkynhneigðum að gegna herþjónustu, en það var eitt kosningaloforða hans.

Barack Obama.
Barack Obama. JASON REED
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert