Janúkóvítsj með forustu

Viktor Janúkóvítsj hefur 3-5 prósenta forskot á Júlíu Tímósjenkó samkvæmt útgönguspám, sem birtar voru klukkan 18 þegar kjörstöðum í síðari umferð forsetakosninganna í Úkraínu var lokað.  

Samkvæmt spá einnar stofnunar fær Janúkóvítsj, sem er fyrrverandi forsætisráðherra landsins, 48,7% atkvæða en Timosjenkó, sem er núverandi forsætisráðherra, 45,5%. Samkvæmt spá sjónvarpsstöðvarinnar  ICTV fékk Janúkóvítsj 49,8% en Timósjenkó 45,2%. 

Timosjenkó, sem fór fyrir appelsínugulu byltingunni svonefndu árið 2004, sem kom Viktor Jútsjenkó til valda, heldur því fram að brögð séu í tafli í kosningunum nú og segist munu virkja stuðningsmenn sína til að mótmæla úrslitinum.

Janúkóvítj var upphaflega lýstur sigurvegari í kosningunum 2004 en kosningarnar voru ógiltar og í nýjum kosningum fór Viktor Jútsjenkó með sigur af hólmi.  

Talið er að Janúkóvítj muni breyta utanríkisstefnu Úkraínu og taka upp nánara samband við Rússland en samband landanna tveggja hefur verið stirt frá því leiðtogar appelsínugulu byltingarinnar náðu völdum.

Úrslit í kosningunum verða ekki birt fyrr en í fyrramálið en að sögn vestrænna fréttamanna eru útgönguspár venjulega marktækar í Úkraínu. Aðstoðarmaður Timosjenko sagði hins vegar að of fljótt væri fyrir stuðningsmenn Janúkóvítsj að fagna sigri.   

Júlía Tímósjenkó á kjörstað í dag.
Júlía Tímósjenkó á kjörstað í dag. Reuters
Viktor Janúkóvítsj greiðir atkvæði í kosningunum í dag.
Viktor Janúkóvítsj greiðir atkvæði í kosningunum í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert