Hollenska stjórnin fallin

Hollenska ríkisstjórnin er fallin vegna ágreinings um veru hollenskra  hermanna í Afganistan. Tilraunir til að miðla málum í gærkvöldi og nótt mistókust og tilkynnti Jan Peters Balkenende forsætisráðherra eftir þær að Verkamannaflokkurinn myndi yfirgefa stjórnina.

Balkenende sagði við blaðamenn í Haag í morgun, eftir  næturfund leiðtoga stjórnarflokkanna,  að hann myndi ganga á fund drottningar Hollands og biðjast lausnar fyrir ráðherra Verkamannaflokksins. Hann muni einnig leggja fram lausnarbeiðni fyrir sig og aðra ráðherra Kristilegra demókrata og ráðherra Kristilega bandalagsins. 

Meginágreiningsefni hollensku stjórnarflokkanna hafa snúist um hvernig bregðast skuli við beiðni Atlantshafsbandalagsins (NATO) um frekari þátttöku hollenska hersins í stríðsrekstrinum í Afganistan.  Verkamannaflokkurinn, sem Wouter Bos, fjármálaráðherra, leiðir,  lofaði kjósendum í kosningabaráttunni haustið 2006 að herinn yrði horfinn með öllu frá landinu á þessu ári. Hinir stjórnarflokkarnir vilja hins vegar íhuga hvort orðið skuli við kröfum NATO um að framlengja dvöl hersins í Uruzgan-héraði en fækka á móti í herliðinu en því hefur Bos hafnað.

Harðar deilur urðu um málið á hollenska þinginu á fimmtudag en þar var Bos sakaður um að reyna að nota það til að afla flokki sínum fylgis í sveitarstjórnakosningum, sem haldnar verða 3. mars. 

Ljóst þykir að boðað verður til þingkosninga í Hollandi innan skamms en kjörtímabilinu átti að ljúka í mars á næsta ári. Skoðanakannanir benda til þess að bæði Kristlegir demókratar og Verkamannaflokkurinn muni missa fylgi. 

Balkenende hefur stýrt fjórum ríkisstjórnum á undanförnum átta árum en allar hafa þær sprungið áður en kjörtímabilinu lauk.   

Um það bil 1950 hollenskir hermenn eru í Afganistan undir stjórn NATO. 21 hollenskur hermaður hefur látið lífið í átökum við uppreisnarmenn í landinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert