Koma Brown til varnar

Samstarfsmenn forsætisráðherra Bretlands, Gordons Brown, hafa komið honum til varnar í dag eftir að birt voru ummæli um Brown í væntanlegri bók blaðamannsins Andrew Rawnsley um helgina. Þar kemur fram að Brown sé svo skapbráður að hann eigi til að ráðast á starfsmenn sína og láta jafnvel hendur skipta. Er fullyrt í bókinni að Brown hafi tekið æðisköst á ráðherraskrifstofunni.

Hvort sem eitthvað er hæft í fullyrðingum Rawnsley þá þykir ljóst að áætlun Verkamannaflokksins um að mýkja ímynd Brown fyrir þingkosningarnar í júní sé fokin út í veður og vind.

Talsmaður hjálparlínu sem fólk getur hringt í vegna eineltis sagði á sunnudag að  nokkur símtöl hefðu borist frá illa stöddu fólki á skrifstofu ráðherrans vegna framkomu hans síðustu árin. „Við erum ekki að gefa í skyn að Gordon Brown sé ruddi, við erum hins vegar að segja að fólk sem vinnur á skrifstofu hans og heyrir beint undir hann hefur átt við vanda að stríða og hefur haft samband við hjálparlínuna okkar,“ sagði talsmaðurinn, Christine Pratt. Þegar hefur einn starfsmaður hjálparlínunnar sagt upp störfum og ásakað Pratt um að rjúfa trúnað við þá sem leit aðstoðar.

Pratt hefur heldur dregið í land í dag og segist nú ekki örugg um hversu margir ráðuneytisstarfsmenn hafi leitað aðstoðar og neitar því að hafa brotið trúnað. „Ég veit að það komu tvö frá skrifstofu aðstoðarforsætisráðherra og önnur tvö eða fleiri frá skrifstofu forsætisráðherra. Fjöldinn skiptir ekki máli,"sagði Pratt í viðtali við BBC.

Peter Mandelson viðskiptamálaráðherra hefur tekið upp hanskann fyrir Brown. „Ég held að hann valti ekki yfir fólk en hann gerir miklar kröfur, hann gerir miklar kröfur til sín líka,“ sagði Mandelson og spurði hvort fólk vildi hafa einhvern veifiskata við stýrið. Brown viðurkenndi í viðtali við sjónvarpsstöðina Channel 4 að hafa stundum látið finna fyrir sér þegar hann lék ruðning á yngri árum.

„Ég vil lýsa því yfir, svo það sé enginn misskilningur á ferðinni: Ég hef aldrei, aldrei slegið til nokkurs manns á ævinni,“ sagði Brown.

Blaðið Observer birti um helgina útdrátt úr bók Rawnsleys þar sem lýst er hegðun Browns í Downingstræti 10. Brown hafi oft öskrað á samstarfsmenn, jafnvel hrist þá. Hafi Gus O'Donnell ráðuneytisstjóri loks sagt Brown að taka sér tak vegna þess að skelfdir skrifstofumenn og símaborðsfólk væru orðin óttaslegin.

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert