Biskupinn segir líklega af sér

Margot Kässman, biskup í Hannover og yfirmaður sambands mótmælenda.
Margot Kässman, biskup í Hannover og yfirmaður sambands mótmælenda. Reuters

Þýskur kvenbiskup og yfirmaður sambands evangelískra kirkna í Þýskalandi, sem telur 25 milljónir mótmælenda, mun líklega segja af sér í dag að því er heimildir AFP fréttastofunnar herma. Biskupinn var tekinn drukkinn undir stýri í Hannover.

Samband evangelískra kirkna í Þýskalandi, EKD, sagði að Margot Kässmann myndi halda blaðamannafund í dag vegna málsins. Saksóknari sagði að Kässmann hafi verið „fullkomlega ófær um að aka“ eftir að lögregla stöðvaði Volkswagen Phaeton bíl hennar seint á laugardag. Þá hafði hún ekið yfir á rauðu ljósi um 500 metra frá heimili sínu.

Eftir að biskupinn féll á öndunarprófi var farið með hann á lögreglustöð. Þar reyndist áfengismagnið vera fimmfalt það sem leyfilegt er fyrir ökumann. Hún á yfir höfði sér háa fjársekt og að vera svipt ökuleyfi í allt að eitt ár.

„Ég er slegin yfir að hafa gert svona alvarleg mistök. Ég veit hve hættulegt og óábyrgt það er að aka undir áhrifum áfengis. Ég mun að sjálfsögðu taka afleiðingunum,“ sagði biskupinn í samtali við Bild.

Ráð EKB sambandsins sagði í dag að það stæði að baki biskupnum. Fjölmiðlar lýsa henni sem blöndu af móður Theresu og leikkonunni Demi Moore. Bild sagði frá því að ónafngreindur maður hafi setið í farþegasæti bílsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert