Dæmdir fyrir brot á friðhelgi einkalífsins

Þrír yfirmenn hjá Google á Ítalíu voru í dag dæmdir í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot á friðhelgi einkalífsins. Voru mennirnir dæmdir fyrir birtingu myndskeiðs á Google þar sem fatlaður unglingur verður fyrir áreiti. Google mun áfrýja dómnum að sögn Bill Echikson, talsmanns Google.

„Google mun áfrýja þessari furðulegu niðurstöðu," segir Echickson og bætir við að dómurinn sé árás á grundvallarreglu tjáningarfrelsis.

Fjórir starfsmenn Google voru ákærðir en einn þeirra, Arvind Desikan„ sem stýrði myndbandadeild fyrirtækisins á Ítalíu á þessum tíma var hins vegar sýknaður af öllum liðum ákærunnar.

„Enginn fjórmenninganna kom nokkuð nálægt myndbandinu. Þeir tóku það ekki upp, þeir sendu það ekki inn og þeir endurskoðuðu það ekki. Samt sem áður voru þeir látnir bera ábyrgð," segir Echickson.

Dómarinn dæmdi Google til þess að greiða sekt og til að birta dóminn í fjölmiðlum á Ítalíu. 

Myndbandið sem um ræðir var í tæpa tvo mánuði á Google Video á árinu 2006. Þar sáust fjórir nemendur ráðast á þroskaheftan ungling fyrir framan tugi annarra sem gerðu ekkert til þess að aðstoða fórnarlambið. Pörupiltarnir voru reknir úr skóla það sem eftir lifði skólaársins og vakti sú ákvörðun mikla reiði meðal almennings.

Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert