Bandaríkin heita aðstoð

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lofaði Chile-búum aðstoð þegar hún kom til Santiago í dag. Fjórir dagar eru nú liðnir frá því stórir landshlutar í Chile urðu fyrir ógurlegum hamförum þegar gríðaröflugur jarðskjálfti reið yfir.

Nú eru að koma í ljós æ fleiri myndskeið sem sýna þau ógnþrungnu augnablik þegar skjálftinn brast á. 

Fólki sem var að dansa skrikaði fótur og loftaklæðningin hrundi niður. 

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsótti höfuðborgina Santiago í dag. Þar efndi hún til blaðamannafundar með  Michelle Bachelet, forseta Chile. Hillary Clinton hét því að veita bágstöddu landinu aðstoð.

„Við munum senda átta vatnshreinsistöðvar. Þær eru á leiðinni. Við erum með færanlegt sjúkrahús með skurðaðstöðu sem er tilbúið til flutnings.  Við ætlum að reyna að útvega sjálfstæðar himnuskiljur (fyrir nýrnaveika). Við erum tilbúin að kaupa og senda færanlegar rafstöðvar, lyf og lækningatæki og erum að útvega og senda færanlegar brýr.“

Aðstoð sem mikil þörf var fyrir kom til strandborgarinnar Constitucion en þar er talið að  350 manns hafi farist. Skemmdir sem urðu í afskekktum bæjum við strendur Chile eru enn óljósar.

Tala látinna er nú um 800. Samkvæmt einni grófri áætlun gæti tjónið vegna 8,8 stiga jarðskjálftans numið meira en 15 milljörðum dollara eða um 1.950 milljörðum íslenskra króna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert