Leiðtogar Evrópu vilja aðstoða Grikki

Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti ræddi í dag við George Papandreou forsætisráðherra …
Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti ræddi í dag við George Papandreou forsætisráðherra Grikklands í París. Reuters

Leiðtogar Evrópu eru boðnir og búnir að aðstoða Grikki við að komast út úr efnahagskreppunni gerist þess þörf. Þetta lét Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti hafa eftir sér á blaðamannafundi í framhaldi af fundi hans með George Papandreou, forsætisráðherra Grikklands í dag.

„Ég vil tala skýrt. Gerist þess þörf munu stjórnvöld á evrusvæðinu standa við skuldbindingar sínar, á því leikur enginn vafi,“ sagði Sarkozy á sameiginlegum blaðamannafundi þeirra Papandreou í París í dag og bætti við: „Ef Grikkir þurfa á okkur að halda þá verðum við til staðar.“

Að sögn Frakklandsforseta eru stjórnvöld í evrulöndunum sextán að vinna að tilteknum viðbragðsáætlunum sem ætlað er að bregðast við kreppunni í Grikklandi en forðaðist að fara út í smáatriði.

Sarkozy lagði engu að síður á það áherslu að Grikkland þyrfti á núverandi tímapunkti ekki á fjárhagsaðstoð að halda og gaf með þeim orðum sínum í skyn að fjárhagslegur björgunarpakki væri ekki í spilunum.

„Grísk stjórnvöld hafa gert þær ráðstafanir sem við ætluðumst til. Nú þurfa leiðtogar innan evrusvæðisins að vera reiðubúnir til þess að axla sína ábyrgð í framhaldinu.“

Papandreou hefur verið um ferð í Evrópu og fundaði til að mynda með Angelu Merkel Þýskalandskanslara í Berlín í gær. Fundur hans með Sarkozy á sér stað aðeins tveimur dögum eftir að gríska þingið samþykkti aðgerðarplan sem ætlað er að afstýra mögulegu gjaldþroti Grikklands.

Angela Merkel og aðrir leiðtogar innan Evrópusambandsins hafa fram til þessa neitað að bjóða Grikklandi fjárhagsaðstoð, en landið þarf nauðsynlega á 20 milljörðum evra að halda fyrir maílok til þess að geta endurfjármagnað skuldir landsins.

Í heild þarf Grikkland að fá rúmlega 50 milljarða evra að láni á þessu ári. Stjórnamálaspekingar telja sig sjá merki þess að Sarkozy sé ekki eins tregur og Merkel til þess að bjóða Grikkjum fjárhagsaðstoð og hann lét fyrir fund sinn með gríska forsætisráðherranum hafa eftir sér að samstarfsfélagar Grikkja innan evrusvæðisins hefðu ekki val um annað en að styðja við bakið á stjórnvöldum í Aþenu.

Forsætisráðherrann gríski lét hafa eftir sér að til væru lausnir á þeim vanda sem Grikkir stæðu frammi fyrir þyrfti landið að fá fé lánað. „Við viljum geta fengið fé að láni, líkt og önnur lönd innan evrusvæðisins, á svipuðum vöxtum, kannski ekki alveg eins en alla vega sambærilegum,“ sagði Papandreou.

Hann benti á að Grikkir vildu finna lausn á vandanum innan Evrópu og tók fram að grísk stjórnvöld hefði engin áform um að leita sér aðstoðar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS). 

Þegar raddir heyrðust frá Grikklandi þess efnis að landið gæti leitað til AGS vakti það mjög svo blendin viðbrögð frá leiðtogum innan Evrópusambandsins sem töldu að slíkt myndi fela í sér mikla niðurlægingu fyrir Evrópu.

Þegar heimsókn Papandreou í París lykur flýgur hann til Washington í Bandaríkjunum þar sem hann mun nk. þriðjudag eiga fund með Barack Obama Bandaríkjaforseta.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert