Gera risasamninga við Indverja

Vladimír Pútín Rússlandsforseti tilkynnti í dag að Rússar muni smíða 16 kjarnakljúfa fyrir Indverja. Er það liður í samningum sem undirritaðir voru við Indverja um varnar- og orkumál. Verðmæti samninganna er metið á um 10 milljarða dollara, jafnvirði um 1.200 milljarða króna.

Pútin er í opinberri heimsókn á Indlandi. Þar sagði hann samstarf Rússa við Indverja í kjarnorkumálum afar mikilvægt í samskiptum þessara þjóða, segir í frétt BBC.

Samkvæmt samningnum við Indverja á að smíða sex ofna fyrir árið 2017 en smíði á tveimur er þegar hafin í suðurhéruðum Indlands. Alls verða kjarnakljúfarnir reistir  á þremur stöðum á Indlandi.

Rússar eiga í samkeppni við Frakka og Bandaríkjamenn um uppbyggingu kjarnorkuvera á Indlandi en Indverjar hafa áform um auka verulega við orkuöflun sína með kjarnorkuverum til að hraða efnahagslegum bata. Hefur þessi samkeppni landanna staðið yfir allt frá árinu 2005 þegar Indverjar gerðu samning við Bandaríkjamenn í kjarnorkumálum.

Meira en helmingur allrar raforku á Indlandi er fenginn með því að brenna kolum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert