JihadJane segist saklaus

Colleen LaRose, sem grunuð er um að hafa skipulagt hryðjuverkaárásir og morðárás á sænskan skopteiknara, sagðist vera saklaus af ákærunni þegar hún kom fyrir dóm í Philadelphiu í dag. LaRose, sem nefndi sig JihadJane í samskiptum á netinu, var handtekin í október á síðasta ári. 

Lögregla segir, að LaRose hafi átt í samskiptum við öfgatrúaða múslima víða um heim. Þá hafi hún sett myndskeið á vefinn YouTube árið 2008 þar sem hún sagðist vilja leggja sitt að mörkum til að linna þjáningar múslima.  

Bandaríska dómsmálaráðuneytið sagði að LaRose hefði verið handtekin eftir að hafa haft samband við fólk í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu til að hvetja það til taka þátt í hryðjuverkum. Hún er meðal annars sögð hafa leitað til kvenna „sem voru með vegabréf og gátu ferðast um Evrópu í þágu heilags stríðs“ og að hafa stolið bandarísku vegabréfi sem hafi átt að nota til að undirbúa hryðjuverk.

Í ákæruskjalinu segir ennfremur að „JihadJane“ hafi samþykkt að myrða ónafngreindan Svía. „Aðeins dauðinn getur stöðvað mig,“ mun hún hafa sagt á Netinu, að sögn fréttastofunnar AFP.

Tengist handtökum á Írlandi

Hermt er að konan hafi haft samband við sænskt sendiráð til að biðja um upplýsingar um hvernig hún gæti fengið dvalarleyfi í Svíþjóð. Hún er einnig sögð hafa ferðast til Evrópu í ágúst síðastliðnum til að dvelja hjá róttækum íslamistum og þjálfa sig, að sögn AFP. Nokkrir fjölmiðlar í Bandaríkjunum, þ. á m. CNN-sjónvarpið og The New York Times, segja að konan hafi ætlað að ráða sænska teiknarann Lars Vilks af dögum eftir að hann birti skopmynd af Múhameð spámanni og áform hennar tengist handtöku sjö múslíma á Írlandi vegna gruns um að þeir hafi lagt á ráðin um að myrða sænska teiknarann. Fréttastofan AP sagði að „JihadJane“ hefði rætt morðsamsærið við að minnsta einn þeirra sem voru handteknir á Írlandi.

Ljóshærð og græneyg

Colleen LaRose er 46 ára gömul, hvít, ljóshærð og græneyg, að sögn heimildarmanns The New York Times. Blaðið segir að í tölvupósti frá einum samsærismannanna hafi hann tekið fram að útlit hennar og bandarískt vegabréf myndi auðvelda henni að starfa í þágu íslamista í Svíþjóð án þess að vekja grunsemdir.

LaRose er á meðal nokkurra kvenna sem hafa verið ákærðar í Bandaríkjunum fyrir aðild að hryðjuverkastarfsemi á síðustu árum. Hún hefur búið í Pennsylvaníu og á Myspace-síðu hennar kvaðst hún hafa snúist til íslamskrar trúar nýlega.


Colleen LaRose.
Colleen LaRose. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka