Varað við neðansjávareldfjalli við Ítalíu

Stærsta neðansjávareldfjall Evrópu gæti sundrast og hleypt af stað  flóðbylgju sem myndi sökkva suðurhluta Ítalíu hvenær sem er, að sögn eldfjallafræðingsins Enzo Boschi.

Marsili eldfjallið er nú þegar útþanið af kviku auk þess sem veggir þess eru viðkvæmir og gætu fallið saman hvenær sem er, eftir því sem Boschi segir í viðtali við ítalska dagblaðið Corriere della Sera. „Þetta gæti þess vegna gerst á morgun," segir Boschi sem er forseti Alþjóðlegu jarðeðlis- og eldfjallafræðistofnunarinnar (INGV) á Ítalíu.

„Nýjustu rannsóknir okkar sýna að eldfjallið er ekki traustbyggt, veggir þess eru viðkvæmir og kvikuþróin er töluvert umfangsmikil. Allt segir þetta okkur að eldfjallið sé virkt og geti byrjað að gjósa hvenær sem er."

Slíkt gos myndi að öllum líkindum leiða til „öflugrar tsunami bylgju sem myndi skella á ströndum héraðanna Campania, Calabria og á Sikiley" að sögn Boschi. Marsili eldfjallið er 3.000 metra hátt en staðsett á sjávarbotni um 150 km suðvestur af Napólí. Það hefur aldrei gosið á sögulegum tíma.

„Allar þær vísbendingar sem við höfum safnað saman eru mjög nákvæmar, en engu að síður er ómögulegt að spá fyrir um hvað muni gerast. Hættan er til staðar en það er erfitt að meta hana."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert