Skrifuðu undir afvopnunarsamning

Forsetar Bandaríkjanna og Rússlands skrifuðu nú á 11. tímanum undir samning sem gerir ráð fyrir því að kjarnavopnum í vopnabúrum ríkjanna tveggja verði fækkað verulega.  

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sagði eftir að hafa skrifað undir samninginn að þetta væri sögulegur viðburður sem stuðlaði að því að heimurinn yrði öruggari. Dmitri Medvedev, forseti Rússlands, sagði að samningurinn markaði nýjan áfanga í samskiptum landanna tveggja.   

Þjóðþingin í Bandaríkjunum og Rússlandi verða að staðfesta samninginn, sem tekur við af svonefndum START samningi frá 1991 en hann rann út í desember.  

Samkvæmt nýja samningnum verða kjarnorkuvopn 30% færri en miðað var við í afvopnunarsamningi Rússa og Bandaríkjamanna frá 2002. Er miðað við að hvort ríki ráði yfir 1550 kjarnaoddum. Þurfa Rússar að fækka kjarnaoddum sínum um rúm 30% og Bandaríkjamenn um 25% miðað við síðasta afvopnunarsamning landanna.

Samningaviðræðurnar um nýja sáttmálann drógust á langinn, meðal annars vegna deilu um áform Bandaríkjamanna um að koma upp eldflaugavarnakerfi í Evrópu og í morgun sögðu rússnesk stjórnvöld, að sáttmálinn öðlaðist því aðeins gildi að Bandaríkin drægju mjög úr umfangi eldflaugavarnanna. Obama sagði í Prag í dag, að hann vildi taka upp viðræður við stjórnvöld í Moskvu um eldflaugavarnakerfið. 

Barack Obama og Dmitrí Medvedev í Prag í dag.
Barack Obama og Dmitrí Medvedev í Prag í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert