Kynjakvótar mælast ekki vel fyrir í Danmörku

Stjórnarandstaðan í Danmörku hyggst í dag leggja fram lagafrumvarp sem kveður á um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Lagafrumvarpið hefur mætt mikilli andstöðu meðal hátt settra kvenna í dönsku atvinnulífi.

Eftir því sem fram kemur í dönskum fjölmiðlum telja athafnakonurnar rangt að skipa konur í stjórnir einvörðungu vegna kyns þeirra.

„Við erum á mótum kvótum vegna þess að hæfnin ein á að ráða vali á fólki í stjórnum,“ segir Bolette Christensen, sem er forstjóri Dansk Industri, og bætir við: „Sem kona ber maður sjálfur ábyrgð á því að koma sér á framfæri, berjast fyrir frama innan fyrirtækis og koma því á framfæri að maður sækist eftir stjórnarsetu.“

Ingelise Bogason, forstjóri hjá ráðgjafafyrirtækinu  Alectica A/S, tekur undir þetta og lítur kynjakvóta neikvæðum augum.

„Með kynjakvótum er verið að þvinga stjórnir til að velja konur sem hafa kannski ekki endilega nægilega mikla reynslu. Konur hljóta að vilja láta velja sig á grundvelli hæfni en ekki kyns,“ segir Bogason og tekur fram að hún sé þeirrar skoðunar að stjórnarmeðlimir þurfi að hafa reynslu sem forstjórar áður en þeir taka sæti í stjórn.

„Það þarf þannig að gera ungum konum það ljóst að hafi þær áhuga á því að ná langt á starfsferli sínum þá þurfi þær að gera mikla kröfur heimafyrir. Þær þurfa að gæta að valinu á maka og finna sér mann sem er reiðubúinn til þess að axla helminginn af þeirri vinnu sem unnin er á heimilinu. Því það krefst tíma og vinnu að ná langt á starfsferli sínum og þar með að sitja í stjórn fyrirtækis,“ segir hún.

Lagafrumvarpið sem lagt verður fram í danska þinginu í dag er samhljóða þeim lögum sem þegar hafa verið innleidd í Noregi árið 2003 og samþykkt voru hérlendis fyrr í vetur. Þar er kveðið á um að fyrir árið 2014 skuli hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja vera 40%. Síðan lögin voru innleidd í Noregi hefur konum í stjórnum fyrirtækja fjölgað úr 7% í 40%.

„En það eru fyrirtæki í Noregi sem hafa neyðst til þess að reka hæfa karlmenn úr stjórnum af því að það varð að skipta þeim út fyrir konum,“ segir Annette Sadolin, sem situr í m.a. stjórn Topdanmark A/S.

Pernille Vigsø Bagge, frá vinstriflokknum SF sem mælir fyrir lagafrumvarpinu, gefur ekki mikið fyrir gagnrýni fyrrgreindra kvenna. „Þær eru að tala niður til kvenna og gefa í skyn að þær séu ekki jafn hæfar og karlmenn. Þær halda því fram að konur verði einvörðungu valdar á grundvelli kyns síns en ekki hæfileika. Það er hins vegar nóg af hæfum konum. Ástæða þess að ekki sitja fleiri konur í stjórnum fyrirtækja í dag byggir á vana, hefð og reynsluleysi. Og það eru vægast sagt léleg rök,“ segir  Vigsø Bagge.

Undir þetta tekur Julie Rademacher, sem er talsmaður jafnréttismála hjá Sósíaldemókrötum.

„Þrátt fyrir að best menntuðu borgarar Danmerkur eru konur eru það enn karlar sem raða sér í allar stjórnunarstöður. Væri tekið tillit til menntunar þá ættu konur að stjórna landinu,“ segir Rademacher. Hún telur að ein helsta ástæða þess að stjórnir séu enn jafn karllægar og raun ber vitni sé vegna þess að karlar njóta góðs af núverandi valdakerfi sem eigi sér aldagamlar rætur.

Að mati Julie Rademacher hafa þær konur sem leggjast gegn kynjakvóta misskilið um hvað málið snúist. „Þær eru hreinlega of væmnar. Ef við setjum okkur ekki einhver markmið þá munu málin ekkert þokast fram á við. Það er fullt af hæfum og duglegum konum í Danmörku, þannig að það passar ekki að hæfileikarnir séu ekki fyrir hendi. Annað kynið er ekki vitlausara en hitt,“ segir hún.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert