Fyrsta gleðigangan í Litháen

Reuters

Samkynhneigðir í Litháen efna til fyrstu gleðigöngu sinnar í höfuðborginni Vilníus í dag. Héraðsdómstóll landsins hafnaði fyrr í vikunni að heimila gönguna á þeim forsendum að ekki væri hægt að tryggja öryggi þátttakenda.

Áfrýjunardómstóll hnekkti þeim dómi í gær, eftir hörð viðbrögð Evrópusambandsins, Daliu Grybauskaite, forseta Litháens, og ýmissa mannréttindasamtaka, þeirra á meðal Amnesty International. Fram kemur í úrskurði áfrýjunardómstólsins að ríkisvaldið verði að standa vörð um réttinn til friðsamlegra mótmæla, þar með talið minnihlutahópa sem halda uppi sjónarmiðum sem stór hluti almennings er andvígur. Búist er við nokkur hundruð manns taki þátt í göngunni í dag auk þess sem óttast er að hópur mótmælenda göngunnar muni einnig mæta.

Alls munu 800 lögreglumenn standa vörð í tengslum við gönguna til þess að tryggja að hún fari friðsamlega fram. Þeim hefur verið uppálagt að gera alla hættulega muni upptæka auk þess sem þeir  eiga að taka af fólki hluti á borð við egg og tómata sem líklegt má telja að notað verði til þess að kasta í göngufólkið.

Samkynhneigð er enn álitið mikið feimnismál í Litháen, en stærstur hluti landsmanna fylgja kaþólsku kirkjunni að málum. Litháen fékk inngöngu í Evrópusambandinu árið 2004 og hafa stjórnvöld þar í landi á síðustu árum verið harðlega gagnrýnd af mannréttindahópum fyrir að gera lítið sem ekkert til þess að koma í veg fyrir að samkynhneigðir verði fyrir aðkasti og ofbeldisverkum kynhneigðar sinnar vegna. 


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert