Páfi: Vandamál kirkjunnar hræðileg

Benedikt páfi segir að kaþólikkar verði að takast á við hræðileg vandamál innan kirkjunnar. Ummælin vekja athygli því páfi hefur ekki kveðið jafn fast að orði um kynferðislegt ofbeldi kaþólskra presta gagnvart börnum.

„Í dag sjáum við á sannarlega hræðilegan hátt hvernig mesta ofsóknin gagnvart kirkjunni kemur ekki aðeins frá óvinum sem standa fyrir utan hana, heldur einnig frá syndinni sem viðgengst innan kirkjunnar,“ sagði páfi við blaðamenn er hann flaug áleiðis til Lissabon, höfuðborgar Portúgals. Þar verður hann næstu fjóra daga.

Tugir þúsunda tóku á móti Benedikt páfa í höfuðborginni í dag. Fjölmargir, bæði ungir sem aldnir, buðu honum stuðning í baráttunni sem hann stendur frammi fyrir.

Benedikt páfi segir nauðsynlegt að réttlætinu verði fullnægt gagnvart fórnarlömbunum. Það verði að setja í forgang. Kirkjan hafi þörf fyrir að læra að fyrirgefa en einnig að stuðla að réttlæti. Benedikt páfi leggur á það áherslu að fyrirgefning komi ekki stað réttlætis.

Páfi hefur ekki tekið jafn sterkt til orða í tengslum við hneykslismál kirkjunnar. Páfagarður hefur verið sakaður um að hylma yfir prestum í Evrópu og Bandaríkjunum sem beittu börn kynferðislegu ofbeldi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert