Sagðir nota börn sem skildi

Her Taílands sakar mótmælendur í miðborg Bangkok um að nota börn sem nokkurs konar skildi til að koma í veg fyrir að öryggissveitir ráðist á þá til að binda enda á mótmælin sem staðið hafa í margar vikur.

Hundruð barna eru sögð vera á meðal um 5.000 mótmælenda sem hafa lagt svæði í miðborginni undir sig og reist þar götuvígi. Talsmaður hersins kom fram í sjónvarpi og sýndi ljósmynd af ungum pilti sem var látinn standa á vegartálma sem reistur var til að verjast hugsanlegri árás hermanna. „Þetta er ástæða þess að hermenn geta ekki farið á svæðið - hryðjuverkamennirnir nota börn og konur sem skildi,“ sagði talsmaðurinn.

Að minnsta kosti eitt barn hefur beðið bana í átökunum sem hafa kostað minnst 38 manns lífið á síðustu fimm dögum. Fjórtán ára piltur lést eftir að hafa fengið skot í magann þegar hermenn hleyptu af byssum á bíl sem nam ekki staðar við varðstöð lögreglu í borginni.

Stjórn Taílands hefur hafnað tillögu 60 þingmanna um að hefja viðræður við leiðtoga mótmælendanna fyrir milligöngu efri deildar þingsins. Stjórnin segir viðræður ekki koma til greina fyrr en mótmælendurnir fari af svæðinu.

Frá mótmælunum í Bangkok.
Frá mótmælunum í Bangkok. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert