Everest verður hættulegra og dýrara

Everest fjall séð frá hlíðum Syangboche í Nepal.
Everest fjall séð frá hlíðum Syangboche í Nepal. GOPAL CHITRAKAR

Sjerpar í Nepal segja að vegna þess hve mjög snjór hefur bráðnað á Everest tindi standi nú klettar auðir sem áður voru huldir snjó og skapi þeim aukna hættu sem reyna við tindinn. Mannbroddar og ísaxir, sem allajafna eru staðalbúnaður Everestfara, eru nú orðnar áhættusamar í notkun að sögn sjerpa. Fjallaklifrarar segja að haldi ísinn áfram að bráðna með sama hraða sé hætt við því að gönguferðir framtíðarinnar verði mun áhættusamari en áður.

Rannsóknir sýna að hitastig hækkar hraðar á Everest fjalli en annars staðar í Suður-Asíu. Af þeim sökum hefur dregið úr snjókomu yfir fjöllunum og jöklar bráðna. Göngutímabilið er senn á enda runnið þetta árið við Everest og eru sjerpar því teknir að snúa aftur heim til Kathmandu, höfuðborgar Nepal. Þeir segja að fjallgöngufólk þurfi nú að komast yfir bera kletta og forðast að verða fyrir grjóthruni sem losni þegar snjórinn bráðnar.

„Þegar það er enginn ís, bara grjót, þá er erfitt að beita verkfærunum sem bíta síður á steininn. Þú rennur frekar og verður mun klunnalegri," segir leiðsögumaðurinn Dawa Stephen Sherpa. „Í 8.000 metra hæð yfir sjávarmáli verður þetta óþægilegt og auk þess hættulegt."

Hann telur að Everest ferðir kunni að verða bæði erfiðari og dýrari vegna þessara áhættuþátta haldi snjórinn áfram að bráðna. Samkvæmt AFP fréttastofunni kostar ferð á Everest í dag a.m.k. 70.000 bandaríkjadali, eða um 9 milljónir íslenskra króna, með flugkostnaði, leiðsögn, leyfum og búnaði inniföldum.

Bandarískir vísindamenn hafa komið fyrir fjölda ljósmyndavéla á Everest svæðinu sem taka myndir á 30 mínútna fresti til að skrásetja bráðnunina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert