Lekinn sagður mun stærri

Óttast er að mun meiri olía leki á botni Mexíkóflóa en forráðamenn olíufyrirtækisins BP hafa haldið fram. Á minnisblaði BP, sem hátt settur þingmaður demókrata birti í gær, kemur fram að fyrirtækið telji að olía úr um 100.000 tunnum muni leka í hafið dag hvern, fari allt á versta veg.

„Upphaflega töluðu þeir aðeins um 1.000 tunnur. Svo sögðu þeir 5.000 tunnur. En nú erum við komin upp í 100.000 tunnur. Þetta var þeirra tækni, þetta var myndvélin þeirra. Þeir hefðu átt að gera sér grein fyrir þessu strax í upphafi. Hvort sem það var til að takmarka skaðabótaskyldu gagnvart sér eða vegna þess að þeir voru gjörsamlega vanhæfir, þá drógu þeir lappirnar í að bregðast við þessu stórslysi af fullum krafti, “ segir þingmaðurinn Ed Markey.

Tölurnar á minnisblaði BP eru mun hærri en þær 60.000 tunnur sem bandarísk yfirvöld hafa reiknað með að leki dag hvern í Mexíkóflóa. 

Kenneth Feinberg, sem stýrir 20 milljarða dala bótasjóði sem BP setti á laggirnar vegna lekans, hefur heitið því að greiða út bætur til fórnarlamba olíuslyssins sem fyrst. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert