272 taldir af í Lýðveldinu Kongó

Talið er að 272 hafi látist er olíubíll varð alelda og sprakk í loft upp í litlu þorpi í Lýðveldinu Kongó í gærkvöldi. Olíubíllinn, hlaðinn eldsneyti, var að koma frá Tansaníu er hann valt í þorpinu Sange. Gat kom á tank bílsins og lak eldsneytið um þorpið áður en kviknaði í því og stór hluti þorpsins varð eldinum að bráð.

Ekki er vitað hversu margir eru sárir þar sem allar upplýsingar um slysið eru enn á reiki. Slys af þessu tagi eru ekki óalgeng á þessu svæði Afríku og mannfall oft mikið enda mikil fátækt á svæðinu. Hópast íbúar að bílunum til þess að útvega sér ókeypis eldsneyti, oft með skelfilegum afleiðingum. Þorpið er skammt frá landamærum Búrúndí

Starfsmenn Rauða krossins eru komnir á svæðið en þeir telja að yfir 100 séu slasaðir eftir eldsvoðann. Eru þeir að hlúa að særðum og undirbúa flutning þeirra á sjúkrahús með þyrlum.

 Flest heimilanna í þorpinu eru strákofar og leirkofar. Segir héraðsstjórinn í South Kivu, Marcellin Cisambo, að einhverjir þorpsbúar hafi látist við að stela bensíni en flestir þeirra hafi látist í húsum sínum er þeir horfðu á HM í knattspyrnu í sjónvarpinu.

Óttast er að stór hluti hinna látnu séu börn sem hópuðust að bifreiðinni er hún valt í þorpinu. Herma heimildir BBC að bifreiðinni hafi verið ekið á miklum hraða. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert