Véfengja meinta hættu af rafbyssum

Bandarískur lögreglumaður sést hér halda á Taser rafstuðbyssu sem starfsbræður …
Bandarískur lögreglumaður sést hér halda á Taser rafstuðbyssu sem starfsbræður hans í Kanada bera og notuðu á flugvellinum í Vancouver. AP

Framleiðandi Taser rafbyssna hefur farið í mál í Kanada til að hnekkja niðurstöðum kanadískrar nefndar sem rannsakaði lát pólsks ferðamanns í október 2007 eftir að rafstuðbyssu var beitt á hann. Taser mótmælir þeirri niðurstöðu að rafbyssum fylgi hætta á „alvarlegum áverkum eða dauða“.

Robert Dziekanski, pólski ferðamaðurinn sem lést, var nýfluttur frá Póllandi. Hann hafði dvalið í um tíu klukkustundir á flugvelli í vesturhluta Kanada áður en hann sturlaðist og fór að kasta húsbúnaði um flugstöðina. 

Lögreglumenn voru kallaðir til og beittu á hann rafstuðbyssu fimm sinnum og settu hann síðan í fjötra. Dziekanski dó nokkrum mínútum síðar. Einn viðstaddur tók atganginn upp á myndband og atvikið vakti athygli víða um heim.

Nefnd undir stjórn Thomas Braidwood, dómara á eftirlaunum, komst að þeirri niðurstöðu að notkun lögreglunnar á rafstuðbyssu hafi ekki verið réttlætanleg. Nefndin komst að þvi að notkun rafstuðbyssunnar og átökin hafi átt verulegan þátt í andláti Dziekanskis. 

Í skýrslu nefndar Braidwood  beindist athyglin mjög að rafstuðbyssunni frá Taser og var niðurstaðan sú að rafstuðbyssur geti valdið alvarlegum meiðslum eða dauða. 

Hæstiréttur Bresku Kólumbíu hefur tekið frá fimm daga til að hlusta á rök Taser fyrirtækisins gegn niðurstöðum nefndarinnar. Fyrirtækið segir að niðurstöðurnar hafi komið niður á sölu á vörum þess um allan heim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert