Saklaus sat inni í 27 ár

Michael Anthony Green
Michael Anthony Green Mynd/Dómsmálaráðuneyti Texas

Bandaríkjamaðurinn Michael Anthony Green var í gær látinn laus úr fangelsi eftir að hafa setið inni í 27 ár. Green var dæmdur í 75 ára langa fangelsisvist árið 1983 fyrir nauðgun en var látinn laus í kjölfarið á því að ný DNA-sönnunargögn, sem sönnuðu að hann var saklaus, litu dagsins ljós.

Fjölskylda Greens sagði að hún væri þakklát fyrir að hitta týnda soninn loks á ný. „Hann getur komið heim og lifað sem venjulegur maður, eins og frjáls maður, saði Adrian Taylor, eldri bróðir fyrrum fangans. Hann kvaðst ekki reiður yfir þessu ranglæti. „Þetta eru viss vonbrigði og það hefði átt að taka á þessu miklu fyrr en að 27 árum liðnum,“ sagði bróðirinn.

Til stóð að sleppa Green lausum á fimmtudag, en því var seinkað vegna þess að fanginn var í talsverðu tilfinningalegu uppnámi. Hann brást illa við þegar hann var handjárnaður á höndum og fótum í hinsta sinn þegar átti að sleppa honum lausum. Því var ákveðið að láta Green sitja inni í sólarhring í viðbót til að jafna sig. Green var rólegri á föstudeginum og sagði fátt.

Lögmaður Greens sagði að skjólstæðingur sinn hefði fulla ástæðu til þess að vera reiður, enda hafi hann verið ranglega sviptur lífi sínu í ákveðnum skilningi. Green var aðeins átján ára þegar hann var dæmdur í fangelsi en er nú orðinn 44 ára gamall.

„Hann fyrirgefur fórnarlambi nauðgunarinnar. Ég er ekki viss um að hann geti fyrirgefið lögreglunni. Ég held að það ætti ekki að fyrirgefa þeim. Þetta hefði ekki átt að gerast,“ sagði lögmaðurinn, sem kennir lélegum störfum lögreglu um óréttláta dóminn sem Green hlaut.

Forsaga málsins er sú, að árið 1983 rændu fjórir menn konu úr símaklefa í norðurhluta Houston í Texas, óku henni á afskekktan stað og nauðguðu henni. Mennirnir óku því næst á brott og skildu konuna eftir. Síðar voru þeir eltir af lögreglu og hlupu þá frá bílnum sínum. Sömu nótt var Green handtekinn af lögreglumönnum á meðan hann gekk um á svæðinu.

Fórnarlambið þekkti ekki Green þegar hann var í haldi lögreglu í fyrstu en benti síðar á hann á mynd og kvað hann einn af ódæðismönnunum.

Green hélt því ætíð fram að hann væri saklaus en var að lokum dæmdur í 75 ára fangelsisvist. Hann var sá eini sem hlaut dóm í málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert