Verðbólgan í Simbabve aðeins 4,1%

Gefnir voru út 500 milljóna dala seðlar í Simbabve árið …
Gefnir voru út 500 milljóna dala seðlar í Simbabve árið 2008. Reuters

Verðbólga í Afríkuríkinu Simbabve var 4,1% á ársgrundvelli í júlí og hefur minnkað hröðum skrefum síðustu misseri, ef marka má tölur frá hagstofu landsins. Árið 2008 var verðbólgan 230 milljón prósent, samkvæmt opinberum tölum en sérfræðingar sögðu að hún væri í raun mun meiri. 

Í júní var verðbólgan 5,3% á ársgrundvelli. Ef matvæli eru undanskilin mælist verðbólgan aðeins 2,9% en verð á matvælum hækkaði um 7,11% á ársgrundvelli í júlí.

Óðaverðbólga var í Simbabve síðasta áratug eða allt þar til ný þjóðstjórn landsins ákvað á síðasta ári að leggja af  gjaldmiðil landsins og taka upp Bandaríkjadal.  

Tendai Biti, fjármálaráðherra, sagði í júlí að verðbólgan muni halda áfram að minnka út þetta ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert