Hættur við Kóranabrennu

Presturinn Terry Jones kynnir áform um Kóranabrennuna.
Presturinn Terry Jones kynnir áform um Kóranabrennuna. Reuters

Prestur á Flórída, sem olli uppnámi um allan heim með áformum um að brenna trúarrit múslima á laugardag, er hættur við. Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna hringdi í prestinn og sagði að líf bandarískra hermanna væru í hættu ef hann héldi fast við áformin um að efna til bókabrennunnar.

Bandaríski presturinn Terry Jones og fylgismenn hans í Flórída, sem eru um 50 talsins, höfðu lýst því yfir að þeir ætluðu að brenna eintök af Kóraninum, trúarriti múslima, á laugardag, 11. september, en þá verða 9 ár liðin frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin.

Þjóðarleiðtogar víða um heim fordæmdu þessi áform, þar á meðal Barack Obama, Bandaríkjaforseti, og sögðu að hætta á hryðjuverkaárásum ykist til muna.

Í kvöld lýsti Jones því yfir, að hann væri hættur við brennuna og ástæðan væri sú, að múslimar hefðu fallist á að hætta við áform um að reisa íslamska menningarmiðstöð nálægt svæðinu þar sem turnar World Trade Center stóðu í New York. Talsmenn múslimanna sögðu hins vegar að þessar fullyrðingar prestsins væru úr lausu lofti gripnar.

Hvíta húsið tilkynnti síðan, að Robert Gates, varnarmálaráðherra, hefði hringt í Jones og sagt honum, að hann stofnaði lífi bandarískra hermanna í hættu með áformum sínum, einkum hermanna í Írak og Afganistan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert