SÞ sakar Ísraelsmenn um glæpi

Eitt af skipunum, sem var í hjálparskipalestinni.
Eitt af skipunum, sem var í hjálparskipalestinni. Reuters

Niðurstaða rannsóknar, sem fór fram á vegum Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna á árás Ísraelsmanna á skipalest hjálparsamtaka í maí, er að full ástæða sé til að sækja Ísraelsmenn til sakar fyrir manndráp og pyntingar.

„Það eru greinilegar vísbendingar, sem styðja saksókn fyrir eftirtalda glæpi á grundvelli 147. greinar fjórða Genfarsáttmálans: vísvitandi manndráp, pyntingar eða ómannúðlega meðferð, að valda vísvitandi miklum þjáningum eða skaða á líkama og heilsu," segir í niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar.  

Fjórði Genfarsáttmálinn er alþjóðlegur sáttmáli um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum.

Nefndin, sem þrír mannréttindasérfræðingar skipuðu, segir einnig, að ofbeldið, sem sérsveitarmennirnir beittu gegn farþegum á skipunum hafi ekki aðeins verið óhóflegt heldur algerlega ónauðsynlegt og raunar ótrúlegt.  

Nefndin kemst einnig að þeirri niðurstöðu, að hafnbann Ísraelsmanna á Gasasvæðinu brjóti gegn alþjóðalögum vegna ástandsins þar.  

Ísraelsher sætti alþjóðlegri fordæmingu eftir að sérsveitir hersins réðust á skip í skipalest, sem var á leið til Gasasvæðisins með hjálpargögn á vegum tyrkneskra hjálparsamtaka. 9 Tyrkir létu lífið í árásinni. 

Utanríkisráðuneyti Ísraels sagði í kvöld, að  nálgun Mannréttindaráðs SÞ sé hlutdræg, öfgafull og pólitísk. Ísraelsmenn hafa haldið því fram, að sérsveitarmennirnir hafi verið að verja hendur sínar þegar þeir skutu skipverjana um borð í skipinu Mavi Marmara.   

Talsmaður utanríkisráðuneytisins segir, að Mannréttindaráðið hafi kennt Ísraelsmönnum um áður en rannsóknin hófst og því komi þessi niðurstaða ekki á óvart.  

Ísraelsmenn neituðu að eiga samvinnu við rannsóknarnefnd mannréttindaráðsins og kusu frekar að starfa með annarri rannsóknarnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem Geoffrey Palmer, fyrrum forsætisráðherra Nýja-Sjálands, og Alvaro Uribe, fyrrum forseti Kólumbíu, fara fyrir. Sú nefnd hefur ekki skilað niðurstöðu. 

Í nefnd Mannréttindaráðs SÞ sitja  Desmond de Silva, fyrrum dómari í stríðglæpadómstóli SÞ, Karl T. Hudson-Phillips, dómari frá Trinidad og  Mary Shanthi Dairiam, mannréttindafrömuður. Nefndin mun skila skýrslu sinni formlega á mánudag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert