Telja hættu á hryðjuverkum

Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Bretlandi telja aukna hættu á hryðjuverkum …
Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Bretlandi telja aukna hættu á hryðjuverkum í evrópskum borgum. RICHARD LEWIS

Talið er líklegt að bandarísk stjórnvöld gefi í dag út viðvörun þar sem bandarískum ferðamönnum verði ráðið frá því að ferðast til Evrópu vegna hættu á árás frá al-Qaeda hryðjuverkasamtökunum.

BBC segir að bandarísk og bresk stjórnvöld hafi staðfest að viðvörun verði gefin út. Viðvörunin muni ekki vera beint að einhverju sérstöku Evrópulandi. Ekki er heldur búist við að gengið verði svo langt að vara ferðamenn við að ferðast til Evrópu.

Leyniþjónustur landanna telja sig búa yfir upplýsingum um að al-Qaeda hafi ákveðið að senda byssumenn til Evrópu með það að markmiði að drepa Vesturlandamenn á fjölförnum stöðum líkt og gert var í Mumbai á Indlandi árið 2008. BBC hefur eftir fulltrúa breskra stjórnvald að hætta á árás beinist aðallega að borgum í Frakklandi, Þýskalandi og Bretlandi.

Upplýsingum sem leyniþjónusta Bandaríkjanna býr yfir var lekið til bandarískra fjölmiðla fyrir helgi. BBC segir að ekki sé talið að hætt hafi verið við aðgerðirnar vegna þessar frétta, en líklega verði þeim ekki hrundið strax í framkvæmd.

Enginn hefur verið handtekinn vegna gruns um að ætla að fremja hryðjuverk, en fylgst er með grunuðum mönnum. Upplýsingar leyniþjónustu Bandaríkjanna benda til að Osama Bin Laden kunni að tengjast þeim áformum sem  al-Qaeda hefur uppi.

Ljóst þykir að verði gefin út viðvörun til ferðamanna hafi það slæm áhrif á ferðaþjónustu í Evrópulöndum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert