Dularfullur dauðdagi á flugvelli

Konan ferðaðist með flugvél Qatar Airways
Konan ferðaðist með flugvél Qatar Airways Reuters

Indversk kona, sem var strandarglópur á flugvellinum í Muscat í Óman í fjóra daga eftir að hafa týnt vegabréfinu sínu, lést úr óútskýrðum sjúkdómi á föstudag, samkvæmt upplýsingum AFP fréttastofunnar úr sendiráði Indlands í Óman í dag.

Segir heimildarmaðurinn að konan hafi þjáðst af móðursýki án þess að skýra það frekar. Konan, sem er húsmóðir frá Thiruvananthapuram í Kerala héraði, var á heimleið þegar í ljós kom að hún hafði týnt vegabréfinu á ferðalaginu. Þetta kom í ljós er flugvél hennar millilenti á leiðinni til Kerala í Doha, höfuðborg Katar. Var hún send aftur til Muscat þaðan sem hún kom og neydd til þess að dvelja í tengiflugsbyggingu flugstöðvarinnar í fjóra sólarhringa. Fékk hún mat frá yfirvöldum en að öðru leyti virðist hún hafa verið látin bíða í reiðileysi á flugvellinum. Haft var samband við sendiráð Indlands í borginni en ekki var búið að útvega henni nýtt vegabréf.

Á föstudag versnaði heilsa konunnar svo hún var flutt á sjúkrahús með hraði en hún lést í sjúkrabifreiðinni á leiðinni á sjúkrahúsið. Hefur lík hennar verið sent aftur til Indlands þrátt fyrir að hún hafi ekki verið með vegabréf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert