Óþefur yfir Marseille

Marseille lyktar illa þessa dagana
Marseille lyktar illa þessa dagana Reuters

Víðtæk verkföll í Frakklandi hafa margvísleg áhrif. Til að mynda er óþefur yfir hluta Marseille í Suður-Frakklandi þar sem sorphirða liggur niðri vegna verkfalls. Eldsneytisskortur er víða í landinu vegna verkfalla og á morgun er gert ráð fyrir að fjölmargir muni taka þátt í verkföllum og mótmælum.

Á vef breska dagblaðsins Guardian er aðstæðum í miðborg Marseille lýst en þar reynir fólk að komast leiðar sinnar þrátt fyrir himinháa ruslahauga á götum úti. Hauga sem anga af rotnuðum fiski, bleyjum og öðru sorpi sem ekki hefur verið hirt í heila viku.

Forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, stendur frammi fyrir einu stærsta máli sem hefur komið upp frá því hann var kjörinn forseti fyrir þremur árum síðan. Að koma umdeildu lagafrumvarpi í gegn sem þýðir breytingu á eftirlaunakerfi landsins. Hann hvikar hins vegar hvergi og verða greidd atkvæði um frumvarpið í efri deild þingsins á miðvikudag. Neðri deildin hefur þegar samþykkt það.

Á vef Guardian segir að áhrifa verkfallsins og mótmælanna gæti einna mest í Marseille, annarri stærstu borg Frakklands, þar sem fjögur þúsund tonn af rusli hafa safnast upp. Yfirvöld í borginni vara við því að ruslið geti fljótlega farið að hafa heilsuspillandi áhrif í borginni en starfsmenn sorphirðunnar neita að mæta til vinnu á ný fyrr en Sarkozy hættir við frumvarpið.

Viðskiptaráð Marseille óttast hvaða áhrif þetta geti haft á orðspor borgarinnar sem hefur sóst eftir því að verða menningarborg Evrópu árið 2013.

Reuters
Enga dísilolíu er að fá í París og nágrenni
Enga dísilolíu er að fá í París og nágrenni Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert