Björgunarmenn í öskuskýi

Björgunarsveitarmenn í Indónesíu vaða ösku og eimyrju við afar erfiðar aðstæður í leit að fórnarlömbum eldfjallsins Merapi. Nokkur þorp standa í hlíðum fjallsins og ekki tókst öllum íbúum að flýja gosið, sem er það stærsta í Indónesíu í 150 ár.  Flugferðir um höfuðborgina Jakarta liggja enn niðri vegna öskuskýsins.

Þykkt öskulag þekur hlíðar eldfjallsins en auk þess stafar björgnarsveitarmönnum stöðug hætta af hugsanlegu gjóskuhlaupi, en svo kallast það þegar brennheit gjóska þeysist á miklum hraða niður hlíðar eldfjalls og ýmist brennir eða kæfir allt sem á vegi hennar verður. Störf björgunarsveitarmannanna eru því erfið, ekki síst þegar þeir finna brunnin lík í húsarústum, auk illa farinna hræja af búpening liggja einnig grafin í öskunni. Yfir 130 manns hafa látist vegna eldgossins í fjallinu sem hófst í október.

Margir þeirra sem tókst að flýja eru brenndir á fótum, aðrir beinbrotnuðu á flóttanum auk þess sem depurð og doði sækir að mörgum sem flýja þurftu heimili sín. Flugumferð er í lamasessi í Indónesíu vegna þess gríðarlega öskuskýs sem Merapi gýs up í háloftin. Yfirmaður alþjóðaflugvallarins í Jakarta segir litla hættu stafa af öskunni, en fæst flugfélög vilja taka áhættuna. Aðeins tveir dagar eru þar til Barack Obama Bandaríkjaforseti er væntanlegur til Indónesíu í opinbera heimsókn á Asíuferð sinni.  Talsmenn Hvíta hússins segjast fylgjast náið með þróun mála en engin ákvörðun hefur verið tekin um að aflýsa heimsókninni. 

Merapi er virkasta eldfjall Indónesíu og er talið eitt hættulegasta eldfjall Suður-Asíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert