Hátæknihryðjuverkamaður

Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, sagði í sjónvarpsþætti í dag að bandarísk stjórnvöld væru að leita leiða til að draga Julian Assange, stofnanda uppljóstrunarsíðunnar WikiLeaks, fyrir dóm. Sagði Biden, að Assange væri hættulegur „hátæknihryðjuverkamaður."

„Við erum að skoða það núna," sagði Biden í þættinum Meet the Press á NBC sjónvarpsstöðinni í dag þedgar hann var spurður hvort stjórnvöld ætluðu að ákæra Assange fyrir að birta bandarísk leyniskjöl á vefnum. Biden vildi hins vegar ekki tjá sig nánar um hvaða leiðir verið væri að skoða.

Þegar Biden var spurður hvort hann teldi að Assange væri tæknivæddur hryðjuverkamaður eða uppljóstrari svipaður Daniel Ellsberg, sem birti Pentagonskjölin á sínum tíma, svaraði varaforsetinn: „Ég myndi færa fyrir því rök að hann sé nær því að vera hátæknihryðjuverkamaður."

Assange sagði á föstudag að hann teldi líkur stöðugt aukast á því, að Bandaríkjastjórn reyni að fá hann framseldan til að svara til saka fyrir að birta bandaríska sendiráðspósta. 

Sérfræðingar Bandaríkjaþings hafa komist að þeirri niðurstöðu, að hægt sé að sækja Assange til saka á grundvelli bandarískra laga en ekkert fordæmi er fyrir því að ákæra útgefendur fjölmiðla á grundvelli þeirra laga. 

Biden sagði í sjónvarpsþættinum, að WikiLeaks hefði valdið tjóni með því að birta sendiráðspóstana. Þá hafi Assange stofnað lífi og starfi fólks í hættu með því að birta skjölin.

Biden viðurkenndi einnig, að aðrir þjóðarleiðtogar hefðu áhyggjur af lekanum. „Menn vilja nú frekar eiga fundi með mér einum en að hafa starfsfólk í fundarsalnum," sagði hann. 

Joe Biden.
Joe Biden. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert