Stærri en Verkamannaflokkurinn

Flokkarnir í ríkisstjórn Jens Stoltenberg hafa misst fylgi.
Flokkarnir í ríkisstjórn Jens Stoltenberg hafa misst fylgi. Reuters

Norski Hægriflokkurinn og Framfaraflokkurinn hafa aukið fylgi sitt og eru nú hvor um sig stærri en Verkamannaflokkurinn, samkvæmt skoðanakönnun sem Norstat gerði fyrir Vårt Land nú í mánuðinum. Þetta kemur fram á fréttavefnum DN.no.

Ef úrslit stórþingskosninga yrðu með sama hætti og niðurstaða skoðanakönnunarinnar myndu Hægriflokkurinn og Framfaraflokkurinn fá samanlagt 54,4% atkvæða og 97 fulltrúa á þinginu, en það samsvarar 57,4% af fjölda þingmanna.

Framfaraflokkurinn bætti mestu fylgi við sig, 4,2 prósentustigum samkvæmt könnuninni, og naut stuðnings 25,8% svarenda. Verkamannaflokkurinn naut fylgis 25,6% svarenda og hafði það minnkað um 1,9 prósentustig.

Hægriflokkurinn nýtur mests fylgis, 28,6% og hefur bætt við sig hálfu prósentustigi frá síðustu könnun. Þetta er mesta fylgi sem Hægriflokkurinn hefur fengið í skoðanakönnunum Vårt Land.

Hinir tveir stjórnarflokkarnir misstu einnig fylgi, líkt og Verkamannaflokkurinn. Miðflokkurinn naut stuðnings 5,3% og Sósíaliski vinstriflokkurinn 5%. Stjórnarflokkarnir nutu því stuðnings 35,9% svarenda. Í kosningum hefði slíkt fylgi skilað þeim 63 fulltrúum á  norska Stórþinginu.

Miðborg Osló. Konungshöllin í bakgrunni.
Miðborg Osló. Konungshöllin í bakgrunni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert