Ítalska hagkerfið á hættusvæði

Hvað sem efnahagslífinu líður kunna Ítalir manna best að baka …
Hvað sem efnahagslífinu líður kunna Ítalir manna best að baka flatbökur. Reuters

Vaxtakjörin sem ítalska ríkinu standa til boða þessa dagana eru þau verstu frá upphafi fjármálakreppunnar. Staðan er alvarleg og er talin hætta á að Ítalir kunnu að lenda í skuldavanda, sambærilegum þeim sem önnur ríki Suður-Evrópu hafa glímt við að undanförnu.

Fjallað er um málið á vef breska blaðsins Daily Telegraph en þar segir að vextir á 10 ára skuldabréfum hafi hækkað um 10 punkta og séu nú komnir í 4,86%, eftir dræm viðbrögð markaðarins við skuldabréfaútgáfu í Róm, höfuðborg landsins.

Túlkar Daily Telegraph áhugaleysið svo að það sé viðvörun um að leiðtogar Evrópusambandsins hafi ekki gert nóg til að endurvekja traust markaðanna er þeir ræddu leiðir til lausnar vandans á evrusvæðinu fyrr í mánuðinum.

Segir þar jafnframt að Ítalir hafi komist hjá fasteignabólu líkri þeirri sem sprakk loks með tilþrifum á Spáni og Írlandi, ásamt því sem agi hafi verið á fjármálum ríkisins undir stjórn Giulio Tremonti fjármálaráðherra. Á hinn bóginn minni versnandi vaxtakjör á mynstrið sem hafi sést í Grikklandi, Írlandi og Portúgal þegar aðgangur að lánsfé tók að verða erfiðari. 

Samkvæmt skuldaklukku tímaritsins Economist nema skuldir ítalska ríkisins nú hátt í 119% af þjóðarframleiðslu.

Blaðið segir að skuldir ríkisins stefni nú í 1,9 billjónir evra, eða 1.900 milljarða evra, eða sem svarar 291.000 milljörðum króna, sem sé við ytri mörk þess sem sé viðráðanlegt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert