Undirbjó stríð í Mið-Austurlöndum

Yfirmaður hermála í Ísrael, Gabi Ashkenazi, (til vinstri) og þáverandi …
Yfirmaður hermála í Ísrael, Gabi Ashkenazi, (til vinstri) og þáverandi varnarmálaráðherra landsins, Amir Peretz (til hægri) AP

Ísraelskur herforingi sagði sendinefnd bandaríska þingsins árið 2009 að hann væri að undirbúa stórt stríð í Mið-Austurlöndum, líklegast gegn Hamas eða Hezbollah. Þetta kemur fram í leyniskjölum sem birt voru í dag.

„Ég er að búa undirbúa ísraelska herinn undir stórstyrjöld, þar sem það er auðveldara að draga síðan úr stríðsrekstrinum en öfugt,“ er haft eftir herforingjanum, Gabi Ashkenazi í skjölum bandaríska sendiráðsins.

Skjölin, sem eru dagsett 15. nóvember 2009, eru meðal þeirra sem WikiLeaks komst yfir, en greint er frá innihaldi þeirra í norska blaðinu Aftenposten í dag.

„Hættan á loftskeytaárás á Ísrael hefur aldrei verið meiri. Þess vegna leggja Ísraelar nú áherslu á eldflaugavarnir,“ bætti Ashkenazi við.

Hann benti á það að Íranir hefður yfir að ráða um 300 Shihab loftskeytum sem gætu náð til Ísrael, og að Ísraelar hefðu aðeins 10 til 12 mínútur til að bregðast við árás. Þrátt fyrir þetta stafaði mest hætta af Hamas á Gaza, og Hezbollah í Líbanon.

Í skjölunum er áætlað að Hezbollah hafa yfir að ráða meira en 40 þúsund loftskeyti, mörg hverra nægilega langdræg til að drífa langt inn í Ísrael. Bandarísk yfirvöld höfðu hins vegar áætlað að Hezbollah hefði yfir 50 þúsund skeyti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert