500 manns fastir í ís

Tveir öflugir ísbrjótar voru sendir til að bjarga fimm skipum sem föst eru í ís í Sakhalin-flóa norður af Rússlandi. Um borð í skipunum eru um 500 sjómenn, farmenn og vísindamenn, aðallega Rússar.

Vandræðin hófust sl. fimmtudag er þrjú skip festust á þessu svæði; fiskveiðiskip, flutningaskip og rannsóknaskip. Í gær stöðvuðust síðan tvö önnur skip vegna hafíssins um 20 sjómílum frá; frystiskip og togari.

Ísbrjótunum miðar hægt á leið sinni að skipunum, gegnum tveggja metra þykkan ísinn að jafnaði. Ekkert amar að áhöfnum skipanna enn sem komið er, nægar matarbirgðir um borð en óttast er um afla fiskiskipanna. Þá er veðurspáin slæm á svæðinu, en Sakhalin flói er á þessum árstíma mjög erfiður yfirferðar vegna hafíss. Eru vonir bundnar við að leysa skipin úr prísundinni á morgun, áður en stormur skellur á að nýju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert