Sænskir veiðimenn á heimleið frá Túnis

Kona við brunnið bílflak í Túnis í morgun.
Kona við brunnið bílflak í Túnis í morgun. Reuters

Hópur Svía, sem voru á villisvínaveiðum í Túnis, eru nú á heimleið en þeir lentu í gær í átökum við lögreglu í höfuðborg landsins þar sem talið var að þeir væru leyniskyttur.

Um er að ræða 12 Svía, sem fóru til Túnis fyrir hálfum mánuði til að veiða villisvín.  Þeir komu til höfuðborgarinnar í gær og voru á leið á flugvöllinn í þremur leigubílum. Lögreglumenn á varðstöð vildu fá að rannsaka bílana og fundu byssur mannanna.

„Þeir leituðu í bílunum. Þeir fundu rifflana okkar og allt varð vitlaust," sagði Ove Oberg, einn Svíanna, við blaðamenn í Túnis í gærkvöldi.  „Þeir drógu okkur út úr bílunum, spörkuðu í okkur og börðu. Þeir meðhöndluðu okkur eins og við væru útlendir hryðjuverkamenn.

Camilla Aakesson Lindblom, talsmaður sænska utanríkisráðuneytisins, sagði að Svíarnir væru allir komnir fram en ekki náðist samband við þrjá þeirra í gærkvöldi. Segir hún að mennirnir bíði þess nú að komast heim. 

Mikill órói hefur verið í Túnis eftir að  Zine El Abidine Ben Ali, hrökklaðist úr landi í lok síðustu viku. Lögregla í Túnis barðist í gær við leyniskyttur í höfuðborginni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert