Skortur á lyfi til dauðarefsinga

Þýski heilbrigðisráðherrann hefur hvatt þýsk lyfjafyrirtæki til að selja ekki lyf til Bandaríkjanna sem notað er til dauðarefsinga. Í gær tilkynnti eini framleiðandi lyfsins í Bandaríkjunum að hann hygðist hætta framleiðslu þess. Í kjölfarið hafa spurningar vaknað hvort að þau ríki sem notast við banvæna sprautu geti framfylgt dauðarefsingunni.

Philipp Roesler, heilbrigðisráðherrann þýski, skrifaði þýskum rannsóknarstofum sem framleiða sódíum thiopental og markaðssamtökum lyfjaiðnaðarins bréf þessa efnis.

Bandaríska fyrirtækið Hospira tilkynnti að það hygðist hætta framleiðslunni í Bandaríkjunum á lyfinu en það hafi ætlað sér að halda henni áfram í verksmiðju fyrirtækisins á Ítalíu. Þarlend yfirvöld hafi hins vegar krafist þess að fyrirtækið hafi strangt eftirlit með hver notar lyfið til þess að koma í veg fyrir að það sé notað við dauðarefsingar. Því hafi verið hætt við þau áform þar sem fyrirtækið gæti ekki tryggt að svo væri ekki.

Nokkur fylki í Bandaríkjunum hafa þurft að fresta aftökum vegna skorts á lyfinu en það er deyfilyf sem er nauðsynlegt í þann lyfjakokteil sem dauðadæmdum föngum er gefinn.

Í Arizona hefur hins vegar lyfið verið flutt inn frá Bretlandi og hefur það vakið deilur í Evrópu þar sem öll lönd hafa afnumið dauðarefsingar. Í Oklahoma-fylki hefur tvisvar verið notað lyf í staðinn sem venjulega er notað til þess að svæfa dýr.

Síðustu skammtarnir af lyfinu sem Hospira framleiddi eru nú að renna út og gæti það valdið vandræðum í að framfylgja dauðarefsingunni í fylkjum eins og Texas og Ohio.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert