Ísrael vill að Vesturlönd styðji Múbarak

Krafa mótmælenda í Egyptalandi er að Múbarak segi af sér.
Krafa mótmælenda í Egyptalandi er að Múbarak segi af sér. OSMAN ORSAL

Ísrael hefur komið þeim skilaboðum til Bandaríkjanna og landa í Evrópu og víðar að það sé í þágu Vesturlanda að styðja ríkisstjórn Hosni Múbarak. Þetta fullyrðir ísraelsk dagblaðið Haaretz.

Skilaboð þessa efnis voru send til sendiráða í síðustu viku, að því er Haaretz segir. Blaðið segir að skilaboð um mikilvægi stuðnings við Múbarak hafi verið send til Bandaríkjanna, Kanada, Kína, Rússlands og nokkurra ríkja í Evrópu.

Stjórnvöld í Ísrael hafa ekki tjáð sig mikið opinberlega um mótmælin í Egyptalandi og fullyrt er að Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels hafi lagt áherslu á það við ráðherra sína að tjá sig ekki um málið. Stjórnvöld í Ísrael muni hins vegar ekki vera ánægð með það sem heyrst hefur frá sumum forystumönnum ríkja á Vesturlöndum sem hafa sagt beint og óbeint að Múbarak verði að segja af sér.

Friðarsamningur er í gildi milli Ísraels og Egyptalands og Ísrael á mikið undir því að áfram verði friðsamleg samskipti milli landanna.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert