Hrósa sigri yfir Japönum

Liðsmenn Sea Shepherd sigla nálægt japönskum hvalveiðibáti.
Liðsmenn Sea Shepherd sigla nálægt japönskum hvalveiðibáti. Reuters

Paul Watson, stofnandi Sea Shepherd samtakanna segir að sú ákvörðun Japana að yfirgefa hvalamiðin við Suðurskautslandið séu „frábærar fréttir“. Undanfarin sjö ár hafa samtökin elt Japana á veiðum þeirra á þessum slóðum.

Watson segir, að hyggist Japanar fara aftur á þessar slóðir til hvalveiða, muni samtökin gera allt til að stöðva veiðarnar.

 „Við verðum áfram hér á miðunum og eltum japönsku hvalveiðiskipin út af svæðinu, “sagði Watson í samtali við AFP fréttastofuna. „Ég treysti þeim ekki, en mun þó taka mark á orðum þeirra. Við skiljum ekki við þá, fyrr en en þau eru komin út af hvalveiðimiðunum.“

Nokkur átök hafa verið á milli Sea Shepherd og japönsku hvalveiðiskipanna. Samtökin hafa varpað fýlubombum á skipin, sem hafa svarað með því að sprauta vatni á skip umhverfissamtakanna.

Japanar aflýstu veiðunum á miðvikudaginn og sögðu að ástæðan væri áreitni af hendi Sea Shepherd. Endurskoðað verður að ári, hvort haldið verði aftur til veiða.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert