Leita fórnarlamba undir flóðljósum

Björgunarstarfsmenn reyna að bjarga fólki úr rústum Christchurch.
Björgunarstarfsmenn reyna að bjarga fólki úr rústum Christchurch. Reuters

Björgunarsveitir vinna nú í gegnum nóttina í Christchurch í Nýja-Sjálandi til að bjarga fólki sem er grafið undir rústum húsa eftir jarðskjálftann sem reið yfir borgina og banaði að minnsta kosti 65 manns. Talið er að yfir hundrað manns séu grafnir undir rústunum.

Notast björgunarsveitarmenn við flóðljós og leitarhunda til að finna fólk í rústunum í kuldanum og bleytunni sem er á svæðinu. Talið er að um þrjátíu manns sé fastir undir rústunum Pyne Gould Guinness-byggingarinnar en þaðan hafa heyrst hróp frá fórnarlömbum skjálftans.

Sjónvarpsstöð náði símasambandi við konu sem er föst undir skrifborði sínu í byggingunni. „Ég hringdi í börnin mín til að kveðja. Það var gjörsamlega hræðilegt. Dóttir mín grét og ég grét líka vegna þess að ég hélt í alvöru að þetta væri endinn. Maður vill segja þeim að maður elski þau, myndir þú ekki vilja það?“ sagði konan sem heitir Anne Voss. Sagðist hún heyra í öðru fólki á lífi í byggingunni og að hún hefði kallað til þess.

Skjálftinn sem var 6,3 stig reið yfir á annasamasta tíma í hádeginu á nýsjálenskum tíma. Borgarstjóri borgarinnar hefur lýst yfir neyðarástandi og skipað fyrir um að miðborgin verði rýmd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert