BBC dregur saman seglin á heimsvísu

Merki heimsþjónustu BBC. Hlustendum hennar mun fækka úr 180 milljónum …
Merki heimsþjónustu BBC. Hlustendum hennar mun fækka úr 180 milljónum í 150 milljónir á viku við aðgerðirnar.

Breska ríkisútvarpið BBC hætti í gær útvarpssendingum sínum á spænsku til Suður-Ameríku, 73 árum eftir að þær hófust. Ástæðan er niðurskurður á fjármagni til BBC World Service. Útvarssendingum BBC á serbnesku og á portúgölsku fyrir Afríkulönd hefur einnig verið hætt.

Stjórnendur BBC segja að þeir hafi þurft að taka erfiðar ákvarðanir í kjölfar þess að ríkisstjórn Bretlands ákvað að skera niður um 16% á fjárlögum til heimsþjónustunnar. Sérstakar útvarpssendingar BBC í Suður-Ameríku hófust þann 14. mars 1938 og var markmið þeirra upphaflega að vega upp á móti áróðri nasista í Þýskalandi og fasista á Ítalíu í aðdraganda Seinni heimsstyrjaldar.

Stærsta áskorun starfseminnar var að halda áfram hlutlausum fréttaflutningi þrátt fyrir mikinn þrýsting frá stjórnvöldum á tímum Falklandseyjastríðsins milli Bretlands og Argentínu árið 1982. Síðustu ár var verulega dregið úr starfseminni vegna útbreiðslu internetsins, og undir lokin var útsendingum einkum beint til hlustenda á Kúbu.

Útsendingar á portúgölsku til Afríkulanda hafa einnig verið í loftinu frá 4. áratug síðustu aldar og voru mikilvægur miðill á átakatímum í Mósambík og Angóla í kjölfar sjálfstæðis þeirra frá Portúgal. Hlustendur BBC í þessum löndum voru allt að 1,5 milljón talsins. Að auki verður þjónustu á serbnesku hætt við hlustendur í Serbíu, Makedóníu og Albaníu auk útsendinga á ensku til hlustenda í Karíbahafi. 

Breskir hermenn á Falklandseyjum árið 1982.
Breskir hermenn á Falklandseyjum árið 1982. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert