Giffords viðstödd geimskot

Giffords með eiginmanni sínum geimfaranum.
Giffords með eiginmanni sínum geimfaranum. Reuters

Bandaríska þingkonan Gabrielle Giffords sem slasaðist alvarlega í skotárás í Tuscon í janúar hyggst vera viðstödd geimskot eiginmanns hennar í næsta mánuði þegar hann verður einn geimfara Endeavour geimskutlunnar þegar hún leggur upp í sína hinstu för.

Að sögn talsmanns Giffords munu breytingar á ástandi hennar auk annarra þátta ráða því hvort hún geti ferðast til Flórída til að fylgjast með skotinu. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu á vefsíðu sinni.

Eiginmaður hennar, Mark Kelly, hefur farið í þrjár geimferðir og verður hann hæstráðandi um borð í Endeavour sem skotið verður á loft þann 19. apríl. Á það að vera síðasta geimskutluflug NASA.

Giffords er nú í endurhæfingu í Texas en búist er við að læknar hennar muni greina frá bata hennar síðar í dag. Þingkonan hefur ekki sést opinberlega síðan hún var skotin í höfuðið þann 8. janúar þegar byssumaður skaut á hóp fólk fyrir utan matvörubúð í Tuscon í Arizona-fylki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert