Samkomulag innan NATO

Fólk, sem flúði átökin í Líbíu, í flóttamannabúðum í Túnis.
Fólk, sem flúði átökin í Líbíu, í flóttamannabúðum í Túnis. Reuters

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, sagði í kvöld að samkomulag hefði náðst um að bandalagið framfylgi flugbanni yfir Líbíu í samræmi við samþykkt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til að vernda óbreytta borgara. 

Rasmussen sagði, að einróma niðurstaða hefði fengist um að NATO axlaði ábyrgð á að framfylgja flugbanninu.

„Við tökum þátt í alþjóðlegri aðgerð til að vernda óbreytta borgara gegn árásum stjórnar (Múammars) Gaddafis," sagði Rasmussen í yfirlýsingu. „Við munum vinna með bandalagsríkjum okkar á svæðinu og fögnum framlagi þeirra." 

Sameinaða arabíska furstadæmið hefur lagt 12 orrustuflugvélar til aðgerðanna, að sögn bandarísks embættismanns. 

Deilt hefur verið um það hverjir eigi að stjórna lofthernaðinum í Líbíu. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði á mánudag að Bandaríkjaher myndi aðeins stjórna hernaðinum í nokkra daga til viðbótar og Robert Gates, varnarmálaráðherra landsins, sagði að Frakkar og Bretar eða NATO gætu tekið við þessu hlutverki.

Frakkar og Tyrkir voru andvígir því að NATO taki við stjórn aðgerðanna en nokkur ríki, einkum Bretar og Ítalar,  hvöttu til að NATO stýrði aðgerðunum.

Hunsa vopnahlé

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði á fundi öryggisráðs SÞ í kvöld, að stjórnarher Líbíu hunsaði vopnahlé, sem SÞ hefur fyrirskipað þrátt fyrir loftárásir á hernaðarleg skotmörk.

„Stjórnvöld í Líbíu hafa ítrekað lýst því yfir að þau hafi fyrirskipað vopnahlé," sagði Ban á fundi öryggisráðsins. „Við sjáum engar vísbendingar um það. Þvert á móti geisa harðir bardagar enn." 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert