Vilja bensínháka burt úr borgum

Reuters

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins leggur til að bifreiðar sem gangi annað hvort fyrir bensíni eða dísilolíu verði bannaðar í miðborgum árið 2050

Siim Kallas, yfirmaður samgöngumála í framkvæmdastjórn ESB, leggur jafnframt til að fólk taki fremur lestina í stað þess að fara á einkabílum þegar það þarf að ferðast vegalengd sem er 300 km eða lengri, eða það sem Kallast kallar „millivegalengd“.

Þá leggur hann til að stefnt verði að því að draga úr losun koltvísýrings frá skipum um 40%. Breska útvarpið skýrir frá þessu.

Hann segir að frelsi manna til að ferðast sé grundvallarréttindi íbúa ESB. Það komi ekki til greina að takmarka það frelsi.

Skv. tillögunni yrði heildarsamdráttur á losun koltvísýrings um 60% og þá yrði stefnt að því að gera ríkin minna háð olíu.

Framkvæmdastjórn ESB, sem vinnur að gerð evrópsku samgöngusvæði, segir nauðsynlegt að gera veigamiklar breytingar á því hvernig fólk ferðast á milli staða. Þannig megi draga úr olíuþörf ríkjanna sem og losun koltvísýrings.

Það er markmið ESB að flestir íbúar sambandsins ferðist frekar með lestum en einkabílum þurfi þeir að ferðast yfir 300 km langa leið.

Kallas segir að þetta þurfi ekki að valda fólki óþægindum. Einnig yrði stefnt að því að fækka bílum sem gangi fyrir bensíni eða dísilolíu í evrópskum miðborgum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert