Pútín gagnrýnir hernað í Líbíu

Vladímír Pútín við Amalíuborg í Kaupmannahöfn í dag.
Vladímír Pútín við Amalíuborg í Kaupmannahöfn í dag. Reuters

Vladímír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, sem er í opinberri heimsókn í Danmörku, gagnrýndi hernaðaraðgerðirnar í Líbíu harðlega á blaðamannafundi í dag og spurði blaðamenn hvort þeir teldu að ráðast ætti á alla brenglaðar ríkisstjórnir.

„Herra Gaddafi hefur búið til nýtt konungdæmi, alveg eins og Napóleon gerði þegar hann komst til valda... Jú, þetta er konungdæmi, brenglað, vafasamt og óeðlilegt; það má lýsa því með ýmsum hætti en þannig er það. Innra ójafnvægi hefur breyst í vopnuð átök. Hvers vegna á að grípa inn í þau átök? Eigum við að grípa inn í innri átök allstaðar?" 

Þá gagnrýndi Putín einnig að reynt sé að ráðast á Múammar Gaddafi, leiðtoga Líbíu. „Þeir segjast ekki vilja ráða Gaddafi af dögum en hvers vegna er þá sprengjum varpað á hallir hans? Eru þetta músaveiðar?" spurði hann. 

Varnarmálaráðherrar bæði Breta og Bandaríkjamann sögðu hins vegar í dag, að bækistöð Gaddafis í Líbíu væri lögmætt skotmark en orrustuflugvélar NATO vörpuðu sprengjum á svæðið í gær.

Þá sagði Liam Fox, varnarmálaráðherra Breta, eftir að hafa rætt við Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, að uppreisnarmenn í Líbíu hefðu náð árangri í stríðinu í landinu og að hersveitir Gaddafis ættu í vök að verjast. 

Pútín ræðir við Margrétu Danadrottningu og Lars Lökke Rasmussen, forsætisráðherra …
Pútín ræðir við Margrétu Danadrottningu og Lars Lökke Rasmussen, forsætisráðherra Dana.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert