Var nauðgað en neydd til að biðjast fyrirgefningar

Nauðgun er glæpur.
Nauðgun er glæpur. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Réttarhöld hefjast í Bandaríkjunum á næstunni í máli konu sem var nauðgað þegar hún var fimmtán ára af meðlimi í kirkjunni hennar. Var henni síðan gert að biðjast afsökunar fyrir framan söfnuðinn á að hafa orðið ólétt.

Christina Anderson var fimmtán ára gömul þegar henni var tvisvar nauðgað sumarið 1997 af Ernest Willis þegar hún var barnfóstra barna hans. Voru þau jafnframt í sama kirkjusöfnuðu í bænum. Var maðurinn 39 ára þegar atburðirnir áttu sér stað en hann er nú 52 ára. Viðurkennir hann að hafa átt mök við stúlkuna, sem nú er 29 ára, en heldur því fram að þau hafi verið með vilja hennar. Varð hún ólétt eftir nauðgunina.

Charles Phelps, fyrrverandi prestur í Trinity baptistakirkjunni er á vitnalista saksóknara í bænum Concord í málinu en Anderson sagði lögreglu að hann hefði séð til þess að hún færi til Colorado-fylkis eftir nauðgunina og neytt hana til þess að skrifa afsökunarbréf sem hún varð að lesa fyrir framan allan söfnuðinn.

Á hann að hafa látið hana dveljast á heimili sínu þar til hún var send til Colorado sem var innan nokkurra daga. Þar fékk hún heimakennslu og eignaðist barn sitt sem hún gaf til ættleiðingar.

Phelps heldur því fram að hann hafi tilkynnt ásakanir stúlkunnar til lögreglunnar í bænum og gagnrýndi hana fyrir að grípa ekki til aðgerða. Lögreglan segir að hún hafi reynt að rannsaka málið á sínum tíma en hafi ekki tekist að finna Anderson. Fannst hún ekki fyrr en á síðasta ári þegar vinir hennar og færslur á netinu bentu til að hún byggi í Arizona-fylki undir nafni eiginmanns síns.

Vilja verjendur Willis að dómarinn banni vitnisburð um að hann hafi boðist til að fara með Anderson í annað fylki til að fara í fóstureyðingu eða að kýla hana í magann til þess að hún missti fóstrið.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert