Króatar vilja flýta ESB-ferli

AP

Króatar vonast eftir að aðildarviðræðum þeirra að Evrópusambandinu ljúki í næsta mánuði. Þeir óttast að frekari töf á viðræðum geti skaðað landið efnahagslega og pólitískt.

Forsætisráðherra landsins, Jadranka Kosor, hefur margoft sagt að viðræðum muni ljúka í júní. Sú tímasetning skiptir Króata miklu máli, en 26. júní 1991 fengu þeir sjálfstæði frá Júgóslavíu og hyggjast halda upp á 20. ártíð þess í ár.

Viðræðurnar hafa staðið yfir í fimm og hálft ár, en þær hófust í október 2005.

Króötum var gert skylt að gera endurbætur á réttarkerfi landsins og efla baráttu gegn spillingu. ESB gerði það einnig að skilyrði að haldið yrði áfram að rannsaka stríðsglæpi frá Bosníustríðinu.

Breið pólitísk samstaða er í landinu um að ganga í Evrópusambandið. Ráðamenn segja að ef viðræðum ljúki í júní, þá eigi landið möguleika á 3,5 milljörðum evra úr uppbyggingarsjóðum sambandsins.

Stuðningur almennings er þó ekki í samræmi við það, hann hefur aldrei mælst lægri og er nú 44,6%. 41,8% landsmanna eru á móti ESB-aðild.

Þingkosningar eru fyrirhugaðar í lok ársins, verði viðræðum ekki lokið fyrir þann tíma gætu þær tafist enn frekar þar til niðurstöður úr þeim verða ljósar.

Slóvenía er eina landið af þeim löndum, sem eitt sinn voru Júgóslavía, sem er í ESB.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert