Skrímslið hélt Obama föstum

Brottför Barack Obama Bandaríkjaforseta frá bandaríska sendiráðinu í Dublin í dag varð heldur háðugleg þegar rennilegur kádiljákur hans festist í hliðinu. Lúxusbifreiðin, sem kölluð er „Skrímslið“ vegna skotheldra varna, sat föst og þurftu forsetahjónin að skipta um bíl.

„Skrímslið“ er sérsmíðað af General Motors fyrir Obama. Bíllinn er skotheldur í bak og fyrir, með brynvörðum hurðum og innbyggðum súrefnisbirgðum til að verjast efnavopnaárás. Skrímslið reyndist þó ekki ráða við lítinn málmbút sem stóð upp úr stéttinni og rakst upp undir undirvagninn. 

Stór hópur írskra aðdáenda forsetans fylgdist með för hans en fögnuðurinn breyttist fljótt í undrunaróp og hlátur þegar forsetabíllinn festist í hliðinu og ekkert gekk að losa hann. Að lokum gáfust Barack og Michelle Obama upp á biðinni og færðu sig í aðra bifreið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert