Zatlers vill rjúfa þing

Valdis Zatlers ávarpaði landsmenn í gær.
Valdis Zatlers ávarpaði landsmenn í gær. Reuters

Valdis Zatlers, forseti Lettlands, fór fram á það í gær að þing landsins yrði leyst upp, eftir að þingmenn komu í veg fyrir að hægt yrði að hefja rannsókn á meintri spillingu lettnesks stjórnmálamanns.

Ákvörðun forsetans þýðir að boðað verður til þjóðaratkvæðagreiðslu innan fárra mánaða um það hvort leysa eigi upp þingið og halda nýjar þingkosningar.

Lettneska þingið mun kjósa nýjan forseta í næstu viku. Zatlers viðurkennir að þessi ákvörðun geti dregið úr möguleikum sínum á að verða endurkjörinn. 

Hann sagði hins vegar í sjónvarpsávarpi í gær að hann yrði að grípa til þessara ráða til að stöðva spillingu á meðal stjórnmálamanna. Flestir landsmenn bera lítið traust til stjórnmálamanna í landinu.

Sl. fimmtudag komu þingmenn í veg fyrir að lögreglumenn gætu framkvæmt húsleit hjá Ainars Slesers, sem er valdamikill stjórnmálamaður og þekktur sem einn af þremur ólígörkum landsins.

Viðamikil spillingarrannsókn á málefnum Slesers er nú í gangi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert