Tekist á í hvalveiðiráði

Hvalveiðar eru umdeildar; Japanar vilja stunda veiðar í vísindaskyni við …
Hvalveiðar eru umdeildar; Japanar vilja stunda veiðar í vísindaskyni við Suðurskautslandið. Langreyður skorin í Hvalstöðinni í Hvalfirði. Ómar Óskarsson

Fulltrúar Japana og hvalverndunarsamtakanna Sea Shepherd áttu hvöss orðaskipti á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í dag, þar sem umræðuefnið var hvalveiðar við Suðurskautslandið.

Fulltrúi Japana í ráðinu, Kenji Kagawa, sakaði Sea Shepherd um skemmdarverk, ofbeldi og ólöglegar aðgerðir.

Máli sínu til stuðnings sýndi Kagawa myndbönd af aðgerðum samtakanna og biðlaði til Ástrala og Hollendinga um að breyta stefnu sinni gagnvart samtökunum, en skip Sea Shepherd eru skráð undir fánum landananna og geta leitað í höfn þar.

Paul Watson, forvígismaður samtakanna, sagðist myndu halda áfram aðgerðum gegn Japönum ef þeir sneru aftur til hvalveiða við Suðurskautslandið í ár. „Ef þeir snúa aftur í Suðurhöf, þá gerum við slíkt hið sama,“ sagði Watson.

Hann sagði að Japanar hefðu hvorki fjárhagslegan né stjórnmálalegan ávinning af því að snúa þangað aftur.

Alþjóðahvalveiðiráðið hefur bannað allar hvalveiðar í Suðurhöfum, sem er við Suðurskautslandið. Japanar hafa stundað þar hvalveiðar í vísindaskyni og hafa veitt um eittþúsund hvali þar á ári undanfarin fimm ár. Slíkar veiðar eru leyfilegar samkvæmt reglum Alþjóðahvalveiðiráðsins, en ýmsar þjóðir og náttúruverndarsamtök hafa fordæmt þær.

Japanar kölluðu hvalveiðiflota sinn heim frá Suðurskautinu í febrúar síðastliðnum, nokkrum mánuðum áður en hvalveiðum átti að ljúka. Þeir sögðu ástæðuna vera áreitni af hendi Sea Shepherd.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert