Norðmenn sáttir við tillögur framkvæmdastjórnar ESB

Frystitogarinn Akraberg. Úr myndasafni.
Frystitogarinn Akraberg. Úr myndasafni. mbl.is/Hafþór

Norsk stjórnvöld eru ánægð með þær tillögur sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt fram um breytingar á fiskveiðistjórnun sambandsins. Einkum og sér í lagi banni við brottkasti. Þetta kemur fram á fréttavefnum Norway Post.

Fyrir utan bann við brottkasti hefur framkvæmdastjórn ESB lagt til að komið verði á eins konar kvótakerfi innan sambandsins þar sem meðal annars verði heimilt að framselja kvóta á milli útgerða og jafnvel á milli landa með samþykki viðkomandi stjórnvalda. Markmiðið er einkum að reyna að koma í veg fyrir ofveiði í fiskveiðilögsögu ESB en mikill meirihluti fiskistofna í lögsögunni eru í dag ofveiddir.

Haft er eftir sjávarútvegsráðherra Noregs, Lisbeth Berg-Hansen, að umræddar breytingar séu mjög mikilvægar. Nauðsynlegt sé að stuðla að því að fiskveiðar innan ESB verði sjálfbærar. Norðmenn eiga í samstarfi við ESB um stjórn fiskveiða á ákveðnum fiskistofnum í Norðursjó og Skagerrak sem skýrir áhuga þeirra á bættri fiskveiðistjórnun sambandsins að sögn Norway Post. 

Tillögur framkvæmdastjórnar ESB eiga nú eftir að fara til ráðherraráðs sambandsins og Evrópuþingsins til umfjöllunar. Enn er alls óvíst hvort þær ná fram að ganga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert